Tillaga um mótun langtímastefnu fyrir hafnir landsins

38. hafnasambandsþing haldið í Vestmannaeyjum dagana 20. og 21. september 2012 beinir því til stjórnar hafnarsambandsins að skipaður verði starfshópur, með aðkomu hagsmunaaðila, sem vinni að sýn og langtímstefnu fyrir íslenskar hafnir. Jafnframt er kallað eftir langtímaáætlun á vegum ráðuneytisins til 50 ára um samgöngumál á Íslandi.

Mikilvægt er að íslenskar hafnir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem mikilvægs hluta samgöngukerfis landsins. Stærstur hluti hagkerfis þjóðarinnar og framtíðartækifæri í atvinnulífinu tengjast með einum eða öðrum hætti öruggum hafnarmannvirkjum. Mikilvægt er því að móta stefnu til lengri tíma sem tryggi afkomu hafna og fjárfestingargetu.

Þar sem slík framtíðarsýn liggur ekki fyrir er varhugavert að breyta því stofnanakerfi sem nú styður við hafnir landsins.

Þingið ítrekar áhyggjur af því að ekki sé tekið mið af afstöðu hagsmunaaðila og þeim sem gerst þekkja og telur að sú ákvörðun að færa hafnamál undir Vegagerð sé ekki nægjanlega ígrunduð. Lýst er verulegum áhyggjum af því að sú sérþekking og þjónusta við hafnir sem nú er innan Siglingastofnunar, fari forgörðum.