Óskað eftir umsögn um drög að reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags.

Um er að ræða nýja reglugerð sem byggir á lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Lögin fela í sér það nýmæli að í fyrsta skipti verði hér á landi unnið að gerð skipulags fyrir strendur Íslands.

Samkvæmt lögunum er strandsvæðisskipulag unnið fyrir tiltekið afmarkað strandsvæði. Þar koma fram markmið og ákvarðanir um framtíðarnýtingu og vernd og þær framkvæmdir sem geta fallið að nýtingu svæðisins. Í reglugerðardrögunum er kveðið nánar á um efni og kynningu lýsingar vegna gerðar strandsvæðisskipulags, efni og framsetningu þess og samráð og kynningu við gerð og afgreiðslu skipulagsins. Átta manna svæðisráð, sem samanstendur af fulltrúum ríkis og sveitarfélaga, bera ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags, og er í drögunum kveðið nánar á um starf svæðisráða.

Óskað er eftir því að athugasemdir við reglugerðardrögin berist í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 4. október nk.

Drög að reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags í Samráðsgátt