Níundi hafnafundur haldinn í Þorlákshöfn

Níundi hafnafundur Hafnasambands Íslands stendur nú yfir í Þorlákshöfn. Hafnafundur er ætlaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn og stjórnendur hafna um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður. Hafnafundur er öllum opinn og tekur ekki ákvarðanir í málefnum Hafnasambands Íslands en getur beint ályktunum til stjórnar hafnasambandsins.

Í setningarræðu sinni minnti Gísli Gíslason, formaður hafnasambandsins, að Hafnasamband Íslands fagnar á þessu ári 50 ára afmæli.  Hafnasambandið var stofnað 12. nóvember árið 1969 að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga og hét þá Hafnasamband sveitarfélaga. Árið 2004 var nafni sambandsins breytt í Hafnasamband Íslands auk þess sem gerðar voru ákveðnar laga- og skipulagsbreytingar á starfseminni. Þá var m.a. ákveðið að halda Hafnasambandsþing annað hvert ár, en hafnafund árin þar á milli.

„Margt hefur því breyst í skipulagi hafnasambandsins og ekki síður hafna frá þeim tíma en fyrir hálfri öld gerðu menn sér samt sem áður grein fyrir sérstöðu hafna og mikilvægi þess að standa saman í því að verja hagsmuni hafna. Þau sjónarmið eiga svo sannarlega enn við dag ekki síst þegar mikilvægt er að minna á mikilvægi hafnanna fyrir efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar.“

Gísli sagði að samstarf við Vegagerðina, áður Siglingastofnun, væri höfnunum mikilvægt. Það væri einnig mikilvægt að á milli aðila ríki traust og hefur hafnasambandið tilnefnt fulltrúa sína til að eiga samstarf við Vegagerðina um fyrirhugaðar breytingar á skipulagi og verkferlum sem varða framkvæmdir í höfnum.

Gísli lagði mikla áherslu á umhverfismál í ræðu sinni og nefndi m.a. að umhverfisáhrif og orkuskipti farþegaskipa hafi mikið verið í umræðunni síðustu  misseri. Hann minnti á að hafnirnar hafa um áratuga skeið átt og rekið millispennukerfi fyrir togara og smærri skip, háspennutengingar farþegaskipa eru hins vegar stærra mál. Mikill kostnaður fylgir slíkum tengingum, rekstrargrundvöllur þeirra er mismunandi og ekki er útlit fyrir að stuðningur hins opinbera verði nægur til að rafvæðing hafna verði víðtæk á næstu árum.

„Umhverfismálin hafa verið sífellt umfjöllunarefni á fundum okkar síðasta áratug eða svo. Á þessum vettvangi hafa hafnirnar axlað ábyrgð og sýnt í verki að hugur fylgir máli og við höfum margsinnis komið því á framfæri að óvíða ef nokkurs staðar eru umhverfisþættir jafn margir og umfangsmiklir og í höfnum landsins.“

Einnig ræddi Gísli um samstarf hafna, m.a. um stofnun samstarfshóps hafnsögumanna og skipstjóra lóðs- og dráttarbáta. Þar munu þrír tilnefndir aðilar leiða starfið og fá í lið með sér hafnsögumenn og skipstjóra annarra hafna. Meðal verkefna hópsins er að efla fræðslu meðal skipstjóra og hafnsögumanna, fylgjast með þróun og nýjungum og að setja fram ábendingar og tillögur um atriði sem auka muni öryggi hafnsögumanna. Þá á hópurinn að efla samstarf milli hafna auk þess að fylgjast með og veita stjórn Hafnasambands Íslands umsögn um laga- og reglugerðarákvæði sem varða hafnsögu og útgerð lóðs- og dráttarbáta.

„Margoft hef ég nefnt að þeir sem starfa að hafnamálum sé harðsnúinn hópur og úrræðagóður. Sem betur fer eru verkefnin í höfnunum alla jafna skemmtilegt puð jafnvel þar sem tekist er á við erfiða stöðu, þá er viljinn og áhuginn alls staðar ódrepandi. Verkefnin fela í sér sífellda áskorun um að styrkja rekstur hafnanna og auka jákvæð áhrif þeirra á samfélagið. Við merkjum jákvæða þróun á sumum sviðum en á öðrum sviðum heldur glíman áfram í von um að við höfum árangur sem erfiði,“ sagði Gísli að lokum.

Setningarræða Gísla Gíslasonar á 9. hafnafundi 2019

Erindi sem flutt voru á 9. hafnafundi 2019