Hafnasambandsþing 2022

Í samræmi við 5. gr. laga Hafnasambands Íslands boðar stjórn hafnasambandsins til 43. hafnasambandsþings sem haldið verður í Ólafsvík, Snæfellsbæ, dagana 27. og 28. október 2022.

Samkvæmt 4. gr. laga hafnasambandsins velja aðildarhafnir fulltrúa á hafnasambandsþing og skal fulltrúafjöldi miðast við árstekjur skv. ársreikningi hafnasjóðs næstliðins árs að undanskildum óreglulegum tekjum. Upplýsingar um fjölda fulltrúa hvers hafnasjóðs verða sendar út um leið og aðildarhafnir hafa sent ársreikning sinn til hafnasambandsins. Vinsamlegast sendið þær upplýsingar á samband@samband.is.

Varafulltrúar á hafnasambandsþing skulu valdir jafnmargir. Heimilt er aðildarhöfn að senda fleiri fulltrúa en þá sem hafa atkvæðisrétt en greiða þarf 25.000 kr. fyrir hvern aukafulltrúa sem sækir þingið.

Kjörgengir á hafnasambandsþing og í stjórn Hafnasambands Íslands eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og hafnarstjórnum, auk varamanna þeirra. Að auki eru kjörgengir starfsmenn hafna og sveitarfélaga.

Þingfulltrúar sjá sjálfir um ferðatilhögun og gistingu. Er fundarmönnum bent á að bóka gistingu hið fyrsta.

Þess er óskað að sveitarstjórnir/hafnarstjórnir tilkynni skrifstofu Hafnasambands Íslands um kjör fulltrúa á hafnasambandsþing eigi síðar en 15. september nk. Þær upplýsingar skal senda á samband@samband.is.