Fiskmerki

Frá apríl 2008 til febrúar 2010 hafa 4000 þorskar verið merktir í Breiðafirði, 1000 á Flákanum og 3000 innan við Grundarfjörð að Stykkishólmi og norður að Bjarneyjum. Þá voru 1000 ufsar merktir á Sex mílunum í ágúst 2010.

Einungis 12 merktir þorskar skiluðu sér til útibúsins 2011, þar af eru 9 úr nýlegum merkingum hér í Breiðafirði. Einn er úr eldri merkingu í Breiðafirði. Einn kemur úr merkingu í Steingrímsfirði og einn úr merkingu Hafró við austurströnd Grænlands.

Þess má geta að í janúar 2012 barst svo merki úr merkingu Grænlensku náttúrufræðistofnunarinnar, sem á grænlensku heitir Pinngortitaleriffik, ekki hefur enn fengist staðfesting á merkingarstað.

Ekkert hefur verið merkt af skarkola í firðinum á undanförnum árum. Þrátt fyrir það komu hér á land 7 merktir skarkolar. 4 þeirra voru merktir í Eyjafirði og rest í Faxaflóa.  6 ufsamerki hafa skilað sér og eru það allt fiskar úr nýlegri merkingu í firðinum.

Merki þessi eru ákaflega mikilvæg við rannsóknir á ferðum og atferli fiska við landið og á milli landgrunna. Viljum við því biðja sjómenn og aðra þá sem meðhöndla fisk að vera vel vakandi gagnvart merktum fiskum.

Merki er venjulega sett í bak fisksins við fremri bakugga á bolfiskum og eyrugga á flatfiskum. Hafrannsóknastofnunin notar appelsínugul floytag slöngumerki með merkingunni ISL.HAFR. og númeri, aðrar stofnanir nota sína liti og merkingar. Grænlenska stofnunin notar, til dæmis, gul merki með merkingunni GRL og númeri.

Hver fiskur fær sitt númer þannig að hægt er að rekja nákvæmlega hvar og hvenær hann var merktur ásamt líkamlegu ástandi hans en allir merktir fiskar eru vegnir og metnir við merkingu og í flestum tilfellum við endurheimtur.

Hafrannsóknastofnunin greiðir 1000 kr. í fundarlaun fyrir hvert endurheimt merki.

Hlynur Pétursson,
útibússtjóri Hafrannsóknastofnunar.

Frétt úr Jökli 2.2.2012