Stjórn Hafnasambands Íslands hefur sent frá sér tvær umsagnir um frumvörp til laga. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna uppbyggingar Helguvíkurhafnar, 113. mál og hins vegar frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum, 598. mál.
Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum
Stjórn hafnasambandsins gerir nokkrar athugasemdir við frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum, m.a. að með frumvarpinu sé verið að fjölga þeim málum sem taka skal til umfjöllunar í formi tilkynninga til Skipulagsstofnunar sem tekur síðan ákvörðun um matsskyldu framkvæmda. Stjórnin bendir sérstaklega á atriði er lúta að hafnarmannvirkjum í frumvarpinu. Þá mælist stjórnin til þess að gætt verði hófs í kröfum um umhverfismat á höfnum sem nú þegar eru starfandi samkvæmt skipulagi, en að við gerð nýrra hafna eða hafnarsvæða, sem eru yfir ákveðnum stærðarmörkum, verði gerð krafa um vandaðan undirbúning og umhverfisrannsóknir.
Umsögn stjórnar Hafnasambands Íslands um frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum.
Frumvarp til laga um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna uppbyggingar Helguvíkurhafnar
Stjórn Hafnasambands Íslands fagnar framkomnu frumvarpi um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna hafnarframkvæmda við Helguvíkurhöfn, enda verði öllum höfnum á Íslandi tryggð sambærileg greiðsluþátttaka í framkvæmdum. Stjórnin telur að með framlagningu og samþykkt fyrirliggjandi frumvarps sé Alþingi að taka undir og staðfesta ákall hafnasambandsins um að hafnir séu mikilvægur hluti samgöngukerfisins, grundvallar forsenda atvinnulífs og að brýnt sé að tryggja höfnum viðunandi fjárhagsgrundvöll. Verði frumvarpið að lögum er því mikilvægt að allar aðrar hafnir á Íslandi njóti sömu leikreglna og gilda munu um Helguvíkurhöfn þannig að hafnir sem nú njóta takmarkaðri styrkja eða engra geti treyst á framlög úr ríkissjóði til lengri framtíðar. Að lokum er á það bent að skynsamlegt væri að innifela í frumvarpinu ákvæði sem tæki jafnframt til nágrannahafnar Helguvíkurhafnar í Sandgerði.
Umsögn um frumvarp til laga um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna uppbyggingar Helguvíkurhafnar.