Einhvers staðar var skrifað að Jón Hreggviðsson á Rein væri persónugervingur íslenskrar alþýðu sem sætir ókjörum. Hýðing Jóns fyrir snærisþjófnað lýsir refsihörku yfirvalda á Íslandi forðum tíð og spurt er hvort hverfa eigi aftur til þeirrar fortíðar með ótæpilegu valdi eftirlitstofnanna. Í lögum um stjórn fiskveiða, tengdum lögum og reglugerð er þeim starfsmönnum hafna sem annast vigtun sjávarafla lagðar á herðar bísna merkilegar skyldur og ábyrgð, sem í öðrum starfsgreinum þættu svo með ólíkindum íþyngjandi að óviðunandi þætti. Hafnasamband Íslands hefur talað fyrir daufum eyrum um breytingar á þessu og ekki bætir úr skák þegar fyrirhugaðar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða herða heldur þær kröfur sem gerðar eru til þessara starfsmanna.
Löngu fyrir daga fiskveiðstjórnunarkerfisins hafa hafnarstarfsmenn annast vigtun sjávarafla, enda er það forsenda fyrir aflagjaldstekjum hafnanna. Við upptöku kvótakerfisins sá ríkið sér leik á borði og nýtti vigtar- og starfskrafta hafnanna – án endurgjalds – til að afla þeirra upplýsinga sem þurfti til að halda reiður á lönduðum afla. Hægt og bítandi hefur ríkið síðan hert allt regluverk sem að þessu snýr, krafist meiri upplýsinga, sett tímamörk á upplýsingagjöfina og fært eftirlitsstofnun sinni víðtækar heimildir til að tyfta starfsmenn, sekta og refsa, ef þeir víkja frá þessum kröfum. Nú er starfsfólk hafna allt hið prýðilegasta fólk og vandséð hvað reki yfirvöld til þess að sveifla refsivendi sínum yfir hausamótum þess umfram aðrar starfsstéttir. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi um stjórn fiskveiða er meðal annars kveðið á um að stjórnvaldssektum skuli beitt óháð því hvort lögbrot sé framið af ásetningi eða gáleysi. Ábyrgð hafnarstarfsmanna sem annast vigtun sjávarafla er því hlutlæg – og engar eða litlar málsbætur ef útaf er brugðið. Til þess að hnútarnir á svipunni séu nægilega ógnandi geta stjórnvaldssektir starfsmannanna numið frá 50 þúsund krónum upp í 50 milljónir króna, en sektir hafnanna sem lögaðila frá 250 þúsundum króna upp í 250 milljónir króna. Til öryggis er kveðið á um að gjalddagi sektanna sé 30 dögum eftir ákvörðun þeirra. Sektarramminn er því víður og breiður – enda telja höfundar eflaust að hin breiðu bök vigtarmanna þoli ekki síður vandarhöggin en Jón Hreggviðsson forðum.
Enginn amast við nauðsynlegu eftirliti, en sú þróun að færa eftirlitsstofnunum óheft vald til ákvörðunar sekta er ekki aðeins varhugaverð heldur til þess fallin að draga verulega úr réttaröryggi. Slíkt er óviðunandi. Þess vegna er skorað á Alþingi að gæta nú vel að því sem sett er í lög og þess krafist að hóflaus útdeiling refsiheimilda gagnvart bryggjuköllum verði stöðvuð.
Gísli Gíslason
formaður stjórnar
Hafnasambands Íslands.