Hafnasamband Íslands hélt hafnasambandsþing í Vestmannaeyjum dagana 20. og 21. september sl. Þar var m.a. fjallað um breytingar á hafnalögum. Á fundinum var m.a. samþykkt eftirfarandi ályktun:
„38. hafnasambandsþing haldið í Vestmannaeyjum dagana 20. og 21. september 2012 beinir þeim tilmælum til innanríkisráðherra að á haustþingi 2012 verði lagt fram frumvarp til breytinga á hafnalögum, sem grundvallast á tillögu fulltrúa Hafnasambands Íslands í nefnd ráðherra um efnið. Hafnasambandsþing telur mikilvægt að þátttaka ríkisins í endurnýjun og nauðsynlegum stofnframkvæmdum við hafnir sé óhjákvæmileg og hvetur til þess að samhliða frumvarpi verði lögð fram tillaga að reglugerð um framkvæmd laganna í þessu efni.“
Þá var fjallað um þá tillögu sem fulltrúar Hafnasambands Íslands gerðu í þeirri nefnd sem innanríkisráðherra skipaði um breytingar á hafnalögum og voru þingfulltrúar almennt sammála efni tillögunnar en samþykktu þó að leggja til eftirfandi breytingar:
- Í 13. grein er tillaga að breytingu á 24. grein laganna. Nefndin leggur til að við b-lið bætist orðin „og endurbætur“ og hljóði þá „Endurnýjun og endurbætur á bryggju í eigu hafnarsjóðs“ og svo framvegis.
- Í sömu grein c-lið falli út orðið „skjólgarð“ undir nýframkvæmdum og lagt til að skjólgarðar verði styrkhæfir um 90%.
- Í sömu grein c-lið verði hlutfall nýframkvæmda 60% í stað 50%.
- Í 6. grein er gerð tillaga að breytingu á 17. grein laganna. Nefndin leggur til að aflagjald verði að lágmarki 1,5%.
- Hafnalaganefnd leggur til að virðisaukaskattsumhverfi hafna verði það sama, hvort sem rekstrarform hafnar sé höfn í eigu sveitarfélags án sérstakrar hafnarstjórnar eða höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags.
Framangreindum efnisbreytingum er hér með komið á framfæri og óskað eftir að þær verði teknar til til efnislegrar skoðunar við gerð endanlegs frumvarps um breytingar á hafnalögum.
Hafnasamband Íslands færir innanríkisráðherra bestu þakkir fyrir skjóta og jákvæða afgreiðslu á beiðni hafnasambandsins um skipun nefndar um hafnalögin. Þeirri beiðn er komið á framfæri að fulltrúar Hafnasambands Íslands fá að hitta innanríkisráðherra þegar frumvarp um breytingar á hafnalögum er tilbúið. Þær breytingar sem hafnasambandið leggur til á hafnalögum eru mikilvægar til þess að styrkja hlutverk hafna fyrir atvinnulíf byggða og samgöngukerfi landsins.
Hægt er að nálgast drög að frumvarpi til nýrra hafnalaga á vefsíðu innanríkisráðuneytisins.