Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að friða elstu mannvirkin við gömlu höfnina í Reykjavík. Um er að ræða eftirfarandi steinhleðslur, sem gerðar voru á árinunum 1913-1945:
- Ingólfsgarður (1913)
- Norðurgarður (1915)
- Steinhleðslur við Suðurbugt (1928-1930)
- Ægisgarður, eystri hleðsla (1932-1935)
- Steinhleðslur við Víkina og Verbúðarbryggjur, frá Rastargötu til Bótabryggju (1940-1945).
Elstu varnargarðarnir í Reykjavíkurhöfn, Ingólfsgarður og Norðurgarður voru á sínum tíma stærstu framkvæmdir sem unnar höfðu verið á Íslandi og þykja bera vönduðu handverki gott vitni. Aðrar steinhleðslur, sem gerðar voru á fyrri hluta síðustu aldar, voru unnar á svipaðan máta og teljast hafa mikið varðveislugildi.