Nýlega lauk endurbyggingu á viðleguköntum í Patrekshöfn. Verkið hófst upphaflega árið 2008 með útboði á stálþilsefni og festingum fyrir 310 m viðlegukant með 6 m dýpi. Heildarþungi efnisins var um 570 tonn og var tilboði frá G. Arasyni tekið. Kostnaður við verkið 2008 var um 119 millj. kr.
Í ágústmánuði 2009 voru opnuð þau 6 tilboð sem bárust í vinnu við þilreksturinn. Samið var við Geirnaglann frá Ísafirði sem átti lægsta boð, 75,5 millj. kr. eða 61% af kostnaðaráætlun. Verkið fólst m.a. í að brjóta upp 4600 m2 þekju, fjarlægja kant, polla og lagnir jafnframt því að skera ofan af gamla þilinu. Reka þurfti niður alls um 205 plötur þils eða 310 metra, steypa jafnlangan kant með pollum og fríholtum og fylla í þilið alls 5500 m3. Samningsverkinu lauk rúmu ári eftir útboð eða í nóvember 2010.
Endurbyggingu var fram haldið með útboði í ágúst 2010 á vinnu við þekju (alls um 5800 m2),lagnir og þrjú veituhús. Samið var við Stálborg frá Hafnarfirði sem bauð 86,8 millj. kr. eða 84% af kostnaðaráætlun. Vinnan við lagnir hófst í nóvember en ekki var auðvelt að finna vottað steypuefni á Suðurfjörðum Vestfjarða og því ákveðið að sigla með það frá Reykjavík, alls um 3000 tonn. Sett var upp steypustöð og komið fyrir sementssílóum en alls voru um 5000 tonn af bygginarefni flutt á staðinn. Samningsverkinu lauk í júlí 2012. Vinna við raflagnir var boðin út í febrúar 2012 og samið við Rafmagnsverkstæði Birgis í Hafnarfirði sem bauð 12 millj. kr. eða 86% af kostnaðaráætlun. Verkið var tekið út í september 2012.
Í heild hafa verkefnin gengið vel og endurbyggingu við eitt lengsta og að hluta til elsta stálþil á landinu lokið með ágætum. Vesturbyggð á í dag eina af fullkomnustu fiskihöfnum landsins og er þeim óskað alls hins besta á komandi árum.
Framkvæmdakostnaður á verðlagi hvers árs er eftirfarandi:
2008 – kr. 119,3 millj. kr.
2009 – kr. 9,6 millj. kr.
2010 – kr. 114,8 millj. kr.
2011 – kr. 88,6 millj. kr.
2012 – kr. 51,9 millj. kr.
Heildarkostnaður er um kr. 384 millj. kr.