Hafnarstjórn Hafnarfjarðar telur afar brýnt að mótaðar séu skýrar reglur um hlutverk og skyldur neyðarhafna og jafnframt sé brýnt að farið verði yfir þá atburðarrás sem átti sér stað sl. föstudag þegar flutningaskipið Fernanda var dregið til hafnar.
Þetta kemur fram í bókun sem var samþykkt á fundi hafnarstjórnar Hafnarfjarðar í morgun.
Lúðvík Geirsson, formaður hafnarstjórnar, segir í samtali við mbl.is, að stjórnin hafi verið kölluð saman til fundar í morgun til að fara yfir stöðuna.
Ýmsum spurningum ósvarað
„Það er náttúrulega ljóst að það er ýmsum spurningum ósvarað í þessu máli eins og þetta hefur komið fram – þessi umræða um neyðarhafnir. Þar vantar allt regluverk. Það er ekkert skýrt til í reglugerðum eða neinu slíku um það hvert hlutverk, ábyrgð og skyldur eru hjá þessum höfnum,“ segir Lúðvík.
Þá bendir hann á, að það vanti skýrari reglur um hvernig menn haldi utan um svona atburði, t.d. hvað varðar vettvangsstjórnum og upplýsingamiðlun til fjölmiðla og íbúa. „Þetta þarf að vera miklu skýrara,“ segir hann.
Aðspurður segir Lúðvík að það sé í höndum Samgöngustofu að ljúka þessari vinnu. „Þetta var hjá Siglingastofnun en nú hjá Samgöngustofu. Þar eru drög að reglugerð sem aldrei hafa verið kláruð,“ segir Lúðvík og bætir við að samgönguráðherra hafi þar af leiðandi ekki getað gefið hana út.
Mögulega orðið vinnutjón
„Við teljum brýnt að fara yfir atburðarásina með slökkviliðinu, bæjaryfirvöldum, höfninni og Landhelgisgæslunni til að draga lærdóm af því sem hér átti sér stað. Auðvitað var þetta eitthvað sem fór úr böndum og maður réði ekki við,“ segir Lúðvík. Aðspurður segir hann þetta snúa m.a. að samskiptum að milli aðila og hvernig haldið sé utan um svona mál.
Spurður hvort tjón hafi hlotist vegna veru flutningaskipsins í höfninni sl. föstudag, segir Lúðvík að það eigi eftir að koma í ljós. „Auðvitað lá reykur yfir vinnustöðum þar sem er ýmiskonar framleiðsla í gangi og sjálfsagt orðið eitthvað vinnutjón í því. En höfnin á að vera skaðlaus frá allri svona uppákomu. Það eru þá væntanlega tryggingatakar skipsins sem eru að kljást við þau mál,“ segir Lúðvík að lokum.
Frétt af www.mbl.is