Samvinna og sameining hafnasjóða

Á hafnasambandþingi sem haldið var í Dalvíkur- og Fjallabyggð 4.-5. september sl. var rætt um að mikilvægt sé að hafnir og sveitarfélög vinni saman að því að efla starfsemi hafna og gera hverja rekstrareiningu arðbæra. Í tengslum við þetta lét hafnasambandið gera könnun á möguleikum á samvinnu og sameiningu hafnasjóða. Könnunin var send á allar aðildarhafnir og framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Alls bárust 74 svör frá 28 hafnasjóðum. Flestir þeirra sem svöruðu voru kjörnir fulltrúar í hafnanefnd, sveitarstjórn eða framkvæmdastjórar sveitarfélaga.

Helstu niðurstöður eru að tæplega 70% aðspurðra telja að hægt sé að auka samstarf hafnasjóða og einungis um 10% telja það ekki vera mögulegt. Þeir sem voru þeirrar skoðunar að hægt væri að auka samstarf töldu að möguleikar á samstarfi fælust t.d.  í samnýtingu á tækjum, búnaði og mannskap. Einnig nefndu margir sameiginleg innkaup og útboð, samvinnu í kringum starfsmannahald og skrifstofu, markaðsmál, samvinnu í tengslum við dráttarbát, hafnsögu, fjarvigtun, viðhald, stefnumótun og fleira.

Rúmlega helmingur aðspurðra taldi einnig að sameina mætti hafnasjóði og búa þannig til hagkvæmari rekstrareiningar. Einungis um 18% töldu að það væri ekki hægt. Tæplega 30% vildu ekki svara eða voru ekki vissir. Ef sá hluti svarenda er tekinn út þá má sjá að 75% svarenda telur að hægt sé að sameina hafnasjóði og búa þannig til hagkvæmari rekstrareiningar.

Þeir sem töldu að hægt væri að sameina hafnasjóði voru einnig beðnir um að nefna sameiningar sem þeir gætu séð fyrir sér. Hér að neðan má sjá lista yfir algengustu sameiningartillögurnar.

  1. Hafnir Dalvíkurbyggðar og Hafnasamlag Norðurlands
  2. Hafnir á Eyjafjarðarsvæðinu
  3. Grindavík og Þorlákshöfn
  4. Hafnir á Snæfellsnesi
  5. Faxaflóahafnir og Þorlákshöfn
  6. Faxaflóahafnir og Reykjaneshafnir
  7. Reykjaneshafnir og Hafnarfjörður
  8. Tálknafjörður og Vesturbyggð
  9. Snæfellsbær og Grundarfjörður