Á fundi stjórnar Hafnasambands Íslands sem haldinn var 24. maí sl. var m.a. lagt fram minnisblað frá Faxaflóahöfnum, dags. 27. apríl 2016, um útblástur skipa og landtengingar skipa. Stjórn hafnasambandsins bókaði eftirfarandi:
Ísland hefur skuldbundið sig samkvæmt COP 21 að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Til að ná þeim markmiðum þarf miklar fjárfestingar í innviðum samfélagsins, þannig að unnt sé að auka verulega notkun á rafmagni.
Hafnasjóðir landsins hafa í auknum mæli á seinustu áratugum boðið upp á landtengingar skipa en til að unnt verði að landtengja stærri skip en nú er mögulegt þarf að fjárfesta enn frekar í innviðum. Hafnarsjóðir eru almennt reiðubúnir að takast á við þetta verkefni, en ljóst er að það er ekki raunhæft nema með myndarlegri þátttöku og framlögum ríkisins og samstarfi við raforkufyrirtæki.
Bent er á að fleiri leiðir eru til að nálgast þau markmið sem Ísland hefur skuldbundið sig til að ná og leggur stjórn Hafnasambands Íslands til að umhverfisráðherra skoði alvarlega hvort ekki sé rétt að lögfesta viðauka VI við MARPOL samninginn og gera umhverfislögsögu Íslands að ECA svæði.