Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi. Um er að ræða endurskoðun á samnefndri reglugerð nr. 35/1994.
Gert er ráð fyrir að reglugerðin gildi um starfsemi olíubirgðastöðva og afgreiðslustöðvar fyrir eldsneyti sem og um rekstur geyma og annarra mannvirkja þar sem olía, lýsi, íblöndunarefni eða lífrænir leysar eru meðhöndlaðir eða geymdir. Þannig mun reglugerðin taka til lýsis, lífrænna leysa og íblöndunarefna í þessi efni auk olíu.
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að ítrustu mengunarvarna sé ávallt gætt við löndun, útskipun, geymslu, dreifingu, notkun og vinnslu á olíu, lýsi og líkum efnum. Þá er reglugerðinni ætlað að skýra ábyrgð dreifingaraðila og eigenda ofangreindra efna þegar mengunaróhöpp verða og tryggja að gripið verði til viðunandi aðgerða. Þannig er í reglugerðinni m.a. fjallað um flutning á eldsneyti og viðbrögð við mengunaróhöppum.
Umsögnum um reglugerðardrögin skal skilað fyrir 15. ágúst nk. á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.
Drög að reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi (word skjal)