Innanríkisráðuneytið hefur til umsagnar drög að frumvarpi til laga um samræmda afhendingu og miðlun upplýsinga um flutninga á sjó. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til 10. janúar næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið postur@irr.is.
Markmið lagasetningarinnar er að greiða fyrir flutningum á sjó meðal annars með því að gera að reglu rafræna afhendingu og miðlun upplýsinga og með því móti að einfalda upplýsingagjöf um flutninga á sjó og draga úr stjórnsýsluálagi. Gera lögin ráð fyrir að ráðherra ákveði nánar með reglugerð með hvaða hætti afhenda skuli viðkomandi upplýsingar og er vaktstöð siglinga falið að varðveita upplýsingarnar og framsenda réttum stjórnvöldum innanlands. Frumvarpsdrögin eru samin í innanríkisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu, að höfðu samráði við embætti tollstjóra og Samgöngustofu.
Tilgangur frumvarpsins er að tryggja nauðsynlegan lagagrundvöll fyrir innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/65/ESB frá 20. október 2010 , um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í aðildarríkjum.
Í tilskipuninni er kveðið með strangari hætti en áður á um skyldur aðildarríkja EES til að tryggja einföldun og samræmingu stjórnsýslumeðferðar að því er varðar komur og brottfarir skipa. Það hefur annars vegar í för með sér að kveða verður með skýrari hætti en áður á um afhendingarmáta og tímasetningu afhendingar upplýsinga og hins vegar heimild innlendra stjórnvalda til að afhenda erlendum stjórnvöldum veittar upplýsingar. Reglurnar munu hafa einföldun í för með sér fyrir skipstjóra og útgerðir skipa en með þeim er kveðið á um að upplýsingar skuli sendar á rafrænan hátt til eins móttakanda sem komi þeim til viðkomandi yfirvalda.