Hafnasambandið 50 ára í dag

Hafnasamband ÍslandsHafnasamband Íslands fagnar 50 ára afmæli sínu í dag, þriðjudaginn 12. nóvember, en hafnasambandið var stofnað þann dag árið 1969 að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga og hét þá Hafnasamband sveitarfélaga. Í byrjun voru 28 sveitarfélög aðilar að hafnasambandinu og fyrsti formaðurinn var Gunnar B. Guðmundsson hafnarstjóri í Reykjavík. Með honum í stjórn voru svo fulltrúar frá Eyrarbakkahöfn, Siglufjarðarhöfn, Ólafsvíkurhöfn og Eskifjarðarhöfn.

Árið 2004 var nafni sambandsins breytt í Hafnasamband Íslands auk þess sem gerðar voru ákveðnar laga- og skipulagsbreytingar á starfseminni. Þá var m.a. ákveðið að halda Hafnasambandsþing annað hvert ár, en hafnafund árin þar á milli. Margt hefur því breyst í skipulagi hafnasambandsins og ekki síður hafna frá þeim tíma en fyrir hálfri öld gerðu menn sér samt sem áður grein fyrir sérstöðu hafna og mikilvægi þess að standa saman í því að verja hagsmuni hafna. Þau sjónarmið eiga svo sannarlega enn við dag ekki síst þegar mikilvægt er að minna á mikilvægi hafnanna fyrir efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar.

Formaður Hafnasambandsins er Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, og framkvæmdastjóri er Valur Rafn Halldórsson.