Fiskistofa birtir reglulega samanburð á vigtun afla hjá vigtunarleyfishöfum þegar eftirlitsmenn hafa staðið yfir endurvigtun og þegar svo hefur ekki verið. Þetta er einn liður í því að gæta hagsmuna þjóðarinnar við sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins með því að tryggja sem best rétta skráningu á afla.
Ætla má af gögnum Fiskistofu að birting þessara upplýsinga hafi skilað marktækum árangri við að gera skráningu á hlutfalli íss og afla réttari, enda hefur Fiskistofa markvist beitt þeirri heimild að láta eftirlitsmenn standa yfir vigtun á kostnað vinnsluaðila þegar ástæða þykir til.
Hér má sjá nýjar upplýsingar um íshlutfall í lönduðum afla í janúar og febrúar 2020.
Að þessu sinni reyndist ís í afla hjá vigtunarleyfishöfunum allt frá því að vera rúmum 7 prósentustigum minni og upp í að vera rúmum 4 prósentustigum meiri við yfirstöðu eftirlitsmanns en þegar vigtað var án eftirlits.
Þar sem munurinn var mestur að þessu sinni reyndist ís við yfirstöðu vera einungis um 40% af því ísmagni sem skráð var að jafnaði þegar eftirlitsmaður var ekki á staðnum.