Tæpir sjö milljarðar í hafnaframkvæmdir og sjóvarnir á árunum 2020-2025

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti nýlega ávarp á ársþingi Hafnasambandsins, sem að þessu sinni var haldið rafrænt. Fjármagn til hafna og mikilvægra sjóvarna hefur verið stóraukið á kjörtímabilinu og síðast í tengslum við fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar í vor. Í ár verður 1,6 milljarði króna varið til hafnaframkvæmda og 1,2 milljarðar eru settir í hafnir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Alls sé áætlað að verja tæpum sjö milljörðum króna á sex ára tímabili frá 2020-2025.

Ráðherra sagði í ræðu sinni á þinginu að hafnir væru afar mikilvægar atvinnulífi og efnahag landsins enda fari langstærsti hluti innflutnings og útflutnings um hafnir. „Mikilvægi hafna fyrir nýtingu sjávarauðlinda, millilandaviðskipti Íslands og ferðaþjónustu verður seint ofmetið. Þjónusta þeirra eru á margan hátt ómissandi hlekkur í að viðhalda og bæta lífskjör á Íslandi,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að með fjölbreyttari atvinnuháttum hafi hlutverk og vægi hafna verið að breytast síðustu ár. Hafnirnar væru „undirstaða atvinnulífs, lífæð samfélagsins sem þurfa að aðlagast að breyttum þörfum og breyttu neyslumynstri neytanda.“

 

Stór verkefni á teikniborðinu

Ráðherra sagði að ýmis stór verkefni væru á teikniborðinu. Vegagerðin ynni að rannsóknum og undirbúningi mikilvægra framkvæmda sem eru til þess fallin að styrkja atvinnulíf og leiða til atvinnusköpunar í viðkomandi byggðalögum. Meðal slíkra verkefna væru nýr hafnarkantur við Sundabakka á Ísafirði, lenging Norðurgarðs á Grundarfirði, endurbygging stálþils á Djúpavogi m.a. vegna fiskeldis og endurbygging Bjólfsbakka á Seyðisfirði.

Sigurður Ingi sagði að í Þorlákshöfn standi til að bæta höfnina til að geta tekið á móti enn stærri og fjölbreyttari skipum. Þar hefur inn og útflutningur vaxið hratt. Í Njarðvík hafi skipasmíðar lengi verið stundaðar og þar er stefnt að því koma upp stórri þurrkví sem gæti sinnt stærri skipum en nú er hægt hér á landi.

Hann sagði að á Sauðárkróki væri vilji fyrir því að byggja upp nýja aðstöðu fyrir fiskvinnsluna á staðnum, sambærilega og gerð var á Dalvík, sem auk þess nýtist fyrir vaxandi vöruflutninga og fjölbreyttari not.

Breytingar á hafnalögum

Ráðherra fjallaði að lokum um frumvarp til breytinga á hafnalögum sem væri í undirbúningi í ráðuneytinu. Í frumvarpinu eru m.a. ákvæði um gjaldtöku vegna þjónustu við fiskeldisfyrirtæki, að gjaldskrá taki tillit til þess hvernig skip eru búin frá umhverfislegu tilliti og loks um rafræna vöktun í höfnum. Þá væru í frumvarpinu innleidd ákvæði EES-gerðar um þjónustu í höfnum og gagnsæi í fjármálum hafna.