Eiga von á sextíu skemmtiferðaskipum í sumar

Eins og annars staðar á landinu féllu komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar niður með öllu í faraldrinum í fyrra. Nú virðist komið annað hljóð í strokkinn; það er von á sextíu skipum í sumar.

Það komu engin skemmtiferðaskip til Ísafjarðar í fyrra, ekkert frekar en annars staðar, og búið var að afboða 150 skip sem búist var við í sumar. En eftir því sem slaknar á COVID-krumlunni hér á landi hafa bókanir tekið við sér. Von er á 57 skipum til Ísafjarðar.

„Og það verða þrjár skipakomur til Flateyrar, þannig þá erum við komin í 60. Síðan eru auka þrjár komur í tollklareringunni á Suðureyri í Súgandafirði. Þannig að 63 skipakomur er bara mjög gott og við erum bara mjög ánægð með það,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri. Ekki var gert ráð fyrir neinum skipum í fjárhagsáætlun og verða þessar komur til um fimmtíu milljóna viðbótartekna. Þá líti næsta ár enn betur út og stefnir í metfjölda skipa.

„Næsta ár erum við að sjá fram á það að það verði kannski 160 skip plús sem koma. Framtíðin er björt og bókanir fyrir ’23, ’24, 25 og jafnvel ’26 eru komnar vel af stað.“

Þá er unnið í stækkun hafnarinnar á Ísafirði, bæði lengingu og dýpkun, en með henni geta stærstu skemmtiferðaskipin lagt þar að. Sú framkvæmd kostar um milljarð og eiga skipin að geta lagt við nýjan kant seinnipart sumars á næsta ári.

Frétt af vef ruv.is