Hafnarfjarðarhöfn fær búnað til að rafvæða skip

Í Fréttablaðinu í dag, 10. ágúst, er m.a. að finna frétt um að Hafnarfjarðarhöfn hafi fengið heimild til að festa kaup á háspennutengibúnaði að jafnvirði 98 milljóna króna. Búnaðurinn verður í færanlegum gámum.

„Við erum í stórverkefni í orkuskiptum og erum að koma upp háspennutengingum á hafnarbakkanum hjá okkur. Það er verið að leggja lagnir á Hvaleyrarbakka og undirbúa lagnir inn á Suðurbakka. Þetta er 1,2 megavatta viðbótarafl inn á hvorn bakka fyrir sig. Við gerum ráð fyrir að geta tengt inn á báða bakkana frá næsta vori,“ segir Lúðvík Geirsson hafnarstjóri í samtali við Fréttablaðið.

„Við höfum verið með öflugt kerfi sem hefur dugað fyrir venjulega umferð en ekki fyrir þessi aflfreku skip; frystitogara, stór fraktskip og farþegaskipin sem hingað koma,“ segir Lúðvík.Ekki sé þó um að ræða stærstu farþegaskipin heldur svokölluð milliskip.

Við höfum kallað eftir því að stjórnvöld komi með meiri þunga inn í þetta heilmikla verkefni í orkuskiptunum að geta landtengt flotann,“ segir Lúðvík. Heildarverkefnið kosti upp undir 700 milljónir króna. Enn sé verið að meta hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda sparist. „Það er verið að vinna í því að meta það en það er töluvert sem þetta mun draga úr losun.“