Á fundi stjórnar Hafnasambands Íslands, sem haldinn var 19. september sl. var m.a. rætt um styrkveitingar úr Orkusjóði á árinu 2023, en engir styrkir úr sjóðnum fóru til hafna eða hafnarsvæða vegna orkuskipta í höfnum.
Stjórn Hafnasambandsins samþykkti af því tilefni eftirfarandi bókun:
Fyrir liggur að í seinustu úthlutun Orkusjóðs hafnaði sjóðurinn öllum umsóknum um styrki vegna almennra landtenginga fyrir fiskiskip og uppsetningar á búnaði á hafnarsvæðum til að landtengja farþegaskip og önnur stór og aflfrek skip. Ekki er hægt að líta á afstöðu Orkusjóðs með öðrum hætti en að uppbygging landtenginga á hafnarsvæðum sé hvorki forgangsmál stjórnvalda né skipti miklu í þeim mikilvægu orkuskiptum sem þjóðin stendur frammi fyrir, þrátt fyrir að lagt hafi verið upp með að þriðjungur af þeim nær milljarði sem var til úthlutunar hafi verið eyrnamerktur verkefnum til að minnka notkun á jarðeldisnotkun í flutningum og siglingum. Til viðbótar þeim almennu hagsmunum samfélagsins af orkuskiptum í höfnum landsins þá hefur sú kvöð verið sett á hafnir sem tilheyra evrópska flutningsnetinu (TEN-T) að ljúka landtengingum fyrir árið 2030. Fimm íslenskar hafnir tilheyra flutningsnetinu. Evrópskar samkeppnishafnir íslenskra hafna hafa fengið úthlutað styrkjum til þessa úr sjóðum ESB. Ísland og Noregur greiða hins vegar ekki í þessa sjóði og því ekki möguleiki fyrir hafnir viðkomandi landa að sækja þar um. Norskar hafnir geta hins vegar sótt styrki til landtenginga í norska orkusjóðinn Enova. Íslenskar hafnir eru aftur á móti skildar eftir með íþyngjandi kvöð um landtengingu skipa en án fjárhagslegs stuðnings. Stjórn Hafnasambands Íslands lýsir mikilli óánægju með afstöðu Orkusjóðs og fer fram á endurskoðun hennar ellegar að breytingar verði gerðar á úthlutunarreglum sjóðsins.