6. hafnafundur hafinn í Grindavík

6 hafnafundur
Hanna Birna Kristjánsdóttir hélt erindi við setningu 6. hafnafundar sem haldinn var í Grindavík 20. september 2013.

 

6. hafnafundur Hafnasambands Íslands var settur í morgun. Í setningarræðu sinni sagði Gísli Gíslason formaður m.a.

Á síðustu árum hefur fjárhagur íslenskra hafna lagast og afkoman betri árið 2012 en árin þar á undan. Hafnarsjóðum sem reknir voru með tapi hefur fækkað en þeir voru þó árið 2012 átta af 35 hafnarsjóðum.

Möguleikar á olíuvinnslu í hafinu fyrir norðan okkur varð Gísla að umræðuefni og telur hann að Íslendingar eigi að auka samstarf við Færeyinga og Grænlendinga í því sambandi.

Ég hef haldið því fram að Ísland eigi að gera samkomulag við Grænland og
Færeyjar um nýtingu uppsjávarfisks á hafsvæði landanna á grundvelli
vísindalegrar ráðgjafar fagfólks frá löndunum þremur. Á þeim grundvelli yrði
síðan gengið til samninga við aðra hagsmunaaðila svo sem Norðmenn og ESB.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var stödd við setningu fundarins og beindi Gísli orðum sínum til hennar er hann ræddi um flókið regluverk sem tengist höfnunum.

Ég hef nefnt það áður að flóknir skipulagsferlar smæstu atriða á atvinnusvæðum vinna gegn heilbrigðu svigrúmi sem mikilvægt er að sé fyrir hendi hvort heldur er á hafnarsvæðum eða öðrum athafnasvæðum. Sífellt flóknara regluverk hvað skipulagsmálin varðar hættir þannig að þjóna tilgangi sínum þegar að smæstu atriðum kemur og ber keim ofstjórnunar með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Í fjórða lagi má nefna tillögugerð – að tilhlutan ESA – um að fjölga þeim verkefnum sem sæti umhverfismati – þar á meðal hafnaverkefnum. Eflaust má tína til fjöldamörg dæmi til viðbótar, en tilhneigingin hefur óneitanlega verið sú að setja fleiri og fleiri reglur um sífellt smærri atriði.  Það getur tæplega þjónað hagsmunum samfélagsins. Í þessum efnum er vissulega mikilvægt að meginleikreglur séu markvissar og tilgangur regluverksins skýr, en regluverkið má ekki misbjóða mannlegri skynsemi. Það er því sannarlega þörf á hreinsun á þessu sviði og vonandi að árangurinn láti ekki á sér standa.