Ágæta fundarfólk.
Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á þennan 6. hafnafund Hafnasambands Íslands, sem nú er haldinn í Grindavík. Það er sérstakt ánægjuefni að mæta til fundar hér í Grindavík þar sem höfnin iðar af lífi og merkilegt frumkvöðlastarf er unnið af útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum hér á staðnum. Grindvíkingar geta verið stoltir af árangri sínum og öðrum fyrirmynd í ýmsu sem varðar sjávarútveg. Í besta skilningi þess orðtaks liggur því fiskur undir steini í Grindavík.
Sem fyrr þá eru verkefni hafnanna mörg og margt sem áhugavert er að fjalla um á hafnafundi. Í dag munum við heyra frá innanríkisráðherra þar sem eflaust á góma staða frumvarps til breytinga á hafnalögum, sem er mikilvægt hagsmunamál hafnanna. Þá verður kynnt staða vinnu við framtíðarstefnu í hafnamálum, sem er stórt verkefni en löngu tímabært. Við munum fjalla um siglingaverndarmál, lóðsinn og vigtarmál og heyra af þróunarverkefninu CODLAND, sem án vafa á eftir að hafa veruleg áhrif á þróun fiskvinnslu á Íslandi. Að lokum verður að sjálfsögðu vel þegin kynning og kynningarferð um Grindavíkurhöfn, sem er ein af öflugustu höfnum landsins og á allan hátt ímynd hafnar sem er forsenda bæjarfélagsins.
Það bíður okkar sem sagt fjölbreytt dagskrá sem ég vona að allir muni njóta og sem flestir leggja sitt til málanna þannig að vegarnestið af fundinum verði gott.
Ég leyfi mér hér í upphafi fundar drepa á nokkur málefni sem skipta hafnirnar máli.
Fyrst skal það nefnt að á síðustu árum hefur fjárhagur íslenskra hafna lagast og afkoman betri árið 2012 en árin þar á undan. Hafnarsjóðum sem reknir voru með tapi hefur fækkað en þeir voru þó árið 2012 átta af 35 hafnarsjóðum. Þar af höfðu 3 hafnarsjóðir ekki tekjur fyrir daglegum rekstri. Þeir 27 hafnasjóðir sem skiluðu hagnaði af rekstri árið 2012 bættu stöðu sína nokkuð, en hafa verður þó í huga að afkoman í heildina gerir flestum hafnarsjóðum ekki kleift að standa í stórræðum varðandi nýframkvæmdir eða viðhald mannvirkja og er það áhyggju efni. Það er ekki síst sú staðreynd sem knýr á um breytingu á hafnalögum þar sem áhersla verður lögð á að ríkissjóður komi að viðhaldsframkvæmdum hafna með framlögum. Fyrir því eru sterk rök, ekki síst í ljósi þess í nágrannalöndum okkar eru innviðir samfélagsins þ.m.t. hafnir, styrktir myndarlega með framlögum ríkissjóða og ESB. Styrkir ESB kristallast m.a. í svonefndu TEN – T verkefni, sem Íslendingar eru ekki aðilar að en gætu það á grundvelli EES samningsins. Í gegnum þetta verkefni fá lönd innan ESB væna styrki til þess að styrkja innviði sína í því skyni að standa betur að vígi í samkeppni á sviði atvinnulífs.
Þá skal drepið hér á auðlindir í norðurhöfum. Þær skipta Íslendinga miklu máli og munu til lengri tíma haft áhrif á umfang og hag hafna ekki síður en almenna byggðaþróun. Við höfum á liðnum misserum og árum fylgst með umræðu um mögulegar siglingar um norðurskautið, námuvinnslu við Grænland, olíuleit á Drekasvæðinu og tregum samningaviðræðum um uppsjávarafisk á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Allt eru þetta gríðarlega stór mál og í þeim fólgnir verulegir hagsmunir lands og þjóðar – og þar með talið hafnanna. Umhverfis okkur er sem sagt að eiga sér stað þróun sem mikilvægt er að taka þátt í að móta eftir því sem okkur er það fært. Í þessu samhengi leyfi ég mér að undirstrika mikilvægi þess að kappkostað verði að auka samstarf okkar við Grænland og Færeyjar. Báðar þjóðirnar telja það þjóna hagsmunum sínum að hafa greiðan aðgang að innviðum og þekkingu á Íslandi til að styrkja stöðu sína gagnvart þeim sem sýnt hafa auðlindum þeirra mikinn áhuga. Við eigum að sjálfsögðu að bregðast við á mun markvissari hátt en gert hefur verið á liðnum misserum. Þetta á við um olíuleitina, námuvinnsluna og ekki síst sjávarfangið í hafinu. Saman eru löndin þrjú með lykilinn að verulegum auðlindum og þekkingu til þess að móta skynsamlega nýtingarstefnu. Ég hef haldið því fram að Ísland eigi að gera samkomulag við Grænland og Færeyjar um nýtingu uppsjávarfisks á hafsvæði landanna á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar fagfólks frá löndunum þremur. Á þeim grundvelli yrði síðan gengið til samninga við aðra hagsmunaaðila svo sem Norðmenn og ESB. Með þeim hætti yrði staða okkar að mínu viti sterkari í samningum og lausn fengist þá á þeirri undarlegu stöðu að meðan ósamið er um makríl þá geta hvorki færeysk eða grænlensk skip landað nema óverulegum makrílafla á Íslandi. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að ýmis úrlausnarefnin í þessu eru flókin og taka þarf tillit til ýmissa þátta og samstarfs okkar við fleiri þjóðir en þessar tvær. Hins vegar hlítur að vera umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga hversu langt við ætlum að ganga í því að meina skipum að landa á Íslandi og þiggja þar þjónustu á sama tíma og rík þörf er á auknum þjóðartekjum og atvinnu. Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvar langtímahagsmunir okkar liggi í þessum efnum í stað þess að halda gagnrýnislaust fast í gamla stefnu um löndunarbann. Það má sjá á rekstri íslenskra hafna að vonir um tekjuauka einnar hafnar í aflagjöldum er í raun á kostnað annarra hafna þar sem við hrærum að mestu í sama pottinum. Framtíðarsýnin um aukin umsvif og auknar tekjur og atvinnu liggja hins vegar í þeirri skipaumferð sem í dag fer að mestu framhjá okkur og þar með þau tækifæri sem felast í auknum áhuga á norðurslóðum. Þar er markaðurinn sem við eigum að horfa til og nýta með skynsamlegum hætti.
Eitt er það verkefni sem hefur vakið athygli mína á síðustu vikum, en ríkisstjórnin undirbýr nú aðgerðir til einföldunar á annars flóknu regluverki samfélagsins, þar sem þess er kostur. Þetta er þarft verkefni og vonandi að hafnirnar njóti árangurs í þessum efnum. Nefna má nokkur dæmi sem snúa að höfnunum í þeirri von að það skili sér til nefndar sem fjallar um þessi mál. Í fyrsta lagi má nefna vinnu sem að boði Eftirlitsstofnunar með Evrópska efnahagssvæðinu (ESA) stendur nú yfir í umhverfisráðuneytinu. Þar er sem sagt verið að smíða lagafrumvarp þar sem skyldur hafna varðandi móttöku á úrgangi úr skipum eru hertar – þrátt fyrir að fyrirkomulag þessara mála sé almennt til mikils sóma. Sem betur fer höfum við mætt ágætum skilningi hjá starfsfólki Umhverfisráðuneytisins og vonandi tekst að leiða málið fram með skynsamlegum hætti. Í öðru lagi skal nefnd sú þörf Umhverfisstofnunar til að herða reglur og leyfisveitingar vegna dýpkunarframkvæmda, án þess að fyrir því liggi sérstök rök um að framgangi þessara mála hafi verið ábótavant á liðnum árum. Í þriðja lagi má nefna nýlega breytingu á skipulagslögum þar sem allir skipulagsferlar eru lengdir og enginn greinarmunur gerður á eðli mála eða stærð. Ég hef nefnt það áður að flóknir skipulagsferlar smæstu atriða á atvinnusvæðum vinna gegn heilbrigðu svigrúmi sem mikilvægt er að sé fyrir hendi hvort heldur er á hafnarsvæðum eða öðrum athafnasvæðum. Sífellt flóknara regluverk hvað skipulagsmálin varðar hættir þannig að þjóna tilgangi sínum þegar að smæstu atriðum kemur og ber keim ofstjórnunar með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Í fjórða lagi má nefna tillögugerð – að tilhlutan ESA – um að fjölga þeim verkefnum sem sæti umhverfismati – þar á meðal hafnaverkefnum. Eflaust má tína til fjöldamörg dæmi til viðbótar, en tilhneigingin hefur óneitanlega verið sú að setja fleiri og fleiri reglur um sífellt smærri atriði. Það getur tæplega þjónað hagsmunum samfélagsins. Í þessum efnum er vissulega mikilvægt að meginleikreglur séu markvissar og tilgangur regluverksins skýr, en regluverkið má ekki misbjóða mannlegri skynsemi. Það er því sannarlega þörf á hreinsun á þessu sviði og vonandi að árangurinn láti ekki á sér standa.
Almennt sagt um reglugerðir og regluverk þá er meiri þörf á því að huga að aðalatriðum mála fremur en smáatriðum. Það væri því nær að beita orku fólks í að fara yfir þau tækifæri sem blasa víða við okkur, horfa til stefnumótunar í þeim málaflokkum sem máli skipta og koma stefnunni til framkvæmda. Þessi vinnubrögð sjáum við hér í Grindavík í CODLAND-verkefninu, þar sem fullnýting þorsksins og þar með verðmætaaukning er hafin á æðra svið. Þetta má einnig sjá í áhuga þeirra hafna, sem beint sjónum sínum að framtíðarmöguleikum í starfsemi sinni, svo sem að norðurskautssiglingum, þjónustu við námu- og olíuvinnslu í norðurhöfum og aukinnar sóknar í markaðssetningu skemmtiferðaskipa svo dæmi séu nefnd. Og hafnirnar sjálfar hafa ráðist í það verkefni að móta stefnu í hafnamálum til lengri framtíðar þannig að þessir mikilvægu innviðir landsins gegni því hlutverki sem þeim er ætlað. Þetta er gert til þess að hafnirnar verði í stakk búnar til þess að styðja við framþróun atvinnulífs á Íslandi, sem þegar öllu er á botninn hvolft, er forsenda þeirra lífsgæða sem fólk hefur væntingar um.
Ágæta fundarfólk.
Það er síst of djúpt í árina tekið þegar því er haldið fram að rekstur hafna sé sífelld uppspretta áskorana og verðugra verkefna. Þó svo að við vinnum hvert að okkar verkefnum þá erum við öll samherjar á þeim keppnisvelli að ná árangri fyrir íslenskt samfélag. Aðstaðan, hugvitið og tækifærin eru til staðar en okkar sjáfra að vinna sem best úr þessum þáttum. Hafnirnar gegna sem fyrr mikilvægu hlutverki og við eigum að vera óhrædd við að fara nýjar leiðir og taka ekki viðtekna venju sem hina einu færu leið. Vissulega er umfang hafnarstarfsemi á Íslandi lítið í samanburði við stóra granna okkar og án nokkurs vafa er fjárhagsgeta margra hafna takmörkuð og um margt viðkvæm fyrir áföllum. Hins vegar erum við lánsöm að því leyti að fólk sem starfar að hafnamálum lætur mótbyr ekki slá sig út af laginu og margir grannar okkar vildu eflaust að þeim byðist þau tækifæri sem við okkur blasa. Það er á grundvelli þessara staðreynda sem ég vona að þessi hafnafundur sem haldinn er hér í Grindavík verði okkur gagnlegur og fróðlegur. Með þeim orðum óska ég ykkur öllum árangurs og velfarnaðar og segi þennan 6. hafnafund Hafnasambands Íslands settann.
Gísli Gíslason
formaður stjórnar Hafnasambands Íslands