Óbeint framlag íslenskra hafna er rúmlega 28% af landsframleiðslu

Óbeint framlag íslenskra hafna er rúmlega 28% af landsframleiðslu en beint framlag um 0,3%. Þetta kemur meðal annars fram í niðurstöðum Vals Rafns Halldórssonar, starfsmanns Hafnasambands Íslands hjá Sambandi

Valur Rafn Halldórsson
Valur Rafn Halldórsson

íslenskra sveitarfélaga, í MS ritgerð hans um efnahagsáhrif íslenskra hafna, sem var lokaverkefni hans í meistaranámi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands á dögunum. Ljóst er að hafnir landsins skipta miklu máli. Þær eru „ein af lífæðum íslensks samfélags“, eins og Valur Rafn orðar það í ritgerðinni, og mikilvægt er „að hlúa að þeim og finna leiðir til að stuðla að betri fjárhagsstöðu og starfsemi“. Valur Rafn segir að niðurstöðurnar komi í sjálfu sér ekki á óvart, en hugsanlega hafi ekki allir gert sér grein fyrir því að margar hafnir standi ekki undir nauðsynlegum framkvæmdum.

Mikilvægar starfsstöðvar
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna og formaður Hafnasambands Íslands, segir að úttektin hafi verið unnin samhliða tillögum að stefnumótun fyrir hafnir á Íslandi. Niðurstöðurnar sýni hvað hafnirnar hafi mikið vægi sem hluti af tekjum sveitarsjóðs í hverju byggðarlagi. Í öðru lagi komi fram að um sé að ræða gífurlega mikilvægar starfsstöðvar og í þriðja lagi sé réttilega bent á misjafna stöðu hafna og æskilegt sé að huga að ákveðinni hagræðingu á hafnarsjóðum til að gegna hlutverkinu betur en nú er gert. „Viðfangsefnið er tekið saman með skýrum hætti og hlutverk okkar hafnarmanna er að halda á lofti mikilvægi hafnanna og hvað hafnaraðstæður og traustur rekstur hafna skiptir samfélagið í heild gríðarlega miklu máli,“ segir Gísli.

Í ritgerðinni kemur fram að framlag ríkisins til hafnarmála hafi dregist mikið saman á nýliðnum árum. Það hafi þó verið aukið á fjárlögum fyrir 2013 og 2014, en mikill meirihluti fjármagnsins fari í framkvæmdir við Landeyjahöfn, sem er ekki í eigu sveitarfélags heldur ríkisins.

Gísli Gíslason
Gísli Gíslason

Gísli segir að þessi staða sé visst áhyggjuefni. Hafnarmannvirki séu mjög dýr og margir smærri hafnarsjóðir hafi ekki bolmagn til að endurnýja mannvirkin, burtséð frá nýframkvæmdum. Hafnirnar séu í samkeppni við lönd sem hafi aðgang að styrkjum, ýmist frá eigin ríkjum eða frá Evrópusambandinu. „Ef við ætlum að sjá sjálf um hafnarmannvirkin verða ríkið, sveitarfélögin og hafnarsjóðir að sjá um í sameiningu að tryggja það að þessar aðstæður séu eins góðar og best verður á kosið,“ segir Gísli. Fram kemur að hugsanlega séu hafnarsjóðir of margir og samkvæmt könnun Íslenska sjávarklasans svöruðu allir hafnarstjórar nema einn því til að fækka mætti hafnarsjóðum. Gísli segir að á hafnasambandsþingi í haust verði látið á það reyna hvort skynsamlegt sé að sameina hafnarsjóði.

Mikil samkeppni
Talsmenn Hafnasambandsins hafa bent á að tekjumöguleikar hafna innan Íslands séu afmarkaður þáttur og ekki líklegur til að vaxa mikið á næstu árum. Því sé mikilvægt að horfa til annarra tekjumöguleika. Í því sambandi áréttar Valur Rafn meðal annars að hafnir gætu orðið þjónustumiðstöðvar fyrir Grænland eins og bent sé á í skýrslu Íslenska sjávarklasans, Stefna til 2030. Þar sé líka rætt um aukin tækifæri vegna aukinnar skipaumferðar og auðlindasóknar á norðurslóðum og þannig geti Ísland orðið þjónustumiðstöð á Norður-Atlantshafi. Gísli tekur í sama streng. Miklir möguleikar felist í þróuninni á Grænlandi, norðurhafssiglingum og í olíuleit norður af Íslandi. „Við þurfum að vera í stakk búin til þess að geta tekið þátt í samkeppni um þessa umferð.“ Til að svo megi verða segir hann mikilvægt að hafnirnar þéttist í rekstri og að stefnumótun til lengri tíma verði skýrari, þannig að menn sæki fram en standi ekki í stað.

 

Frétt úr Morgunblaðinu fimmtudaginn 26. júní 2014