Reynt verður í dag að ná fiskibátnum Sölku af botni Sandgerðishafnar, en hann sökk þar á skammri stundu í gær, sunnudag, eftir að stálbáturinn Rán GK sigldi á hann við bryggju, þegar Rán var að koma úr róðri.
Salka er 30 tonna eikarbátur og standa möstrin ein upp úr sjónum, en Rán er stór stálbátur. Salka var mannlaus þegar Rán sigldi á hana og engan sakaði um borð í Rán.
Þegar lögregla kom á vettvang hafði skipstjórinn á Rán stungið af, en hann fannst í gærkvöldi og verður yfirheyrður í dag.
Björgunarsveitarmenn fundu neyðarbaujuna úr Sölku, en hún fór að senda út neyðarskeyti eftir að Salka sökk.