Í frétt á vefnum visir.is er viðtal við Guðmund M. Kristjánsson, hafnarstjóra Ísafjarðarhafna, þar sem hann spáir mikilli uppsveiflu í komu skemmtiferðaskipa á næstu árum.
Í fréttinni segir m.a.:
Meira en fimmtíu skemmtiferðaskip hafa lagst að bryggju á Ísafirði í sumar. Hafnarstjóri segir að koma skemmtiferðaskipa í Skutulsfjörð í sumar hafi verið kærkomin breyting frá því í fyrra. Von er á að tæplega sextíu skip komi til Ísafjarðar á þessu ári. Aðsókn ferðamanna, bæði Íslendinga og útlendinga, hefur verið gríðarleg á Vestfjörðum í sumar og hafa sum tjaldsvæði verið full í nær allt sumar.
Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega á svæðinu og segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði, að sumarið hafi gengið mjög vel.Munurinn sé mikill miðað við síðasta ár, þegar ekkert skemmtiferðaskip kom, en ekkert miðað við það sem hefur verið áður.
„Þetta er svo sem ekkert miðað við það sem var bókunarstaðan hjá okkur um síðustu áramót, það var mikið afbókað af því. Það voru 150 skip áætluð hjá okkur til okkar í sumar en við erum þá að fá allavega tæplega sextíu skip af þeim. Það hefur gengið alveg ótrúlega vel. Það er passað vel upp á smitrakningu og covid í þessum skipum,“ segir Guðmundur.
Rúmlega helmingur þeirra 57 skipa sem von er á í ár hafa þegar lagt við höfn á Ísafirði. Árið 2019 komu tæplega 130 skemmtiferðaskip til hafnar á Ísafirði og segist Guðmundur eiga von á góðum komandi árum. Verið er að stækka höfnina á Sundabakka til að geta tekið á móti fleiri skemmtiferðaskipum í framtíðinni og segist Guðmundur bjartsýnn á næstu ár.
„Bókunarstaðan fyrir næsta ár er komin á milli 150 og 160 skipakomur og bókunarstaðan fyrir árin 2023 og 2024 er mjög góð miðað við ártíma þannig að við erum að sjá áframhaldandi vöxt.“