Lúðvík endurkjörinn formaður hafnasambandsins

Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar, var endurkjörinn formaður Hafnasambands Íslands sem lauk rétt í þessu á Akureyri. Alls sóttu þingið ríflega 100 fulltrúar frá höfnum víðs vegar um landið. Fjölmörg fræðsluerindi voru flutt og sköpuðust góðar umræður m.a. um stöðu hafnanna, framkvæmdir, vöktun og orkuskipti í höfnum.

Akureyrarhöfn er vinsæll áfangastaður farþegaskipa á Norðurslóðum. Hér má glögglega sjá stærð þeirra í samanburði við Menningarhúsið Hof þar sem 45. hafnasambandsþing fór fram 24. og 25. október 2024. Ljósm.: Hafnasamlag Norðurlands.

Samþykkt ályktana

Þingið samþykkti ályktun til stjórnvalda þar sem m.a. var fjallað um að tryggt verði að fyrirhuguð skattheimta á komur farþegaskipa til landsins verði ekki til þess að setja komur þeirra til Íslands í uppnám. Einnig var það ítrekað að hafin verði vinna við öryggisúttekt og stefnumótun vegna siglinga stórskipa við strendur landsins.

Í ályktun þingsins er einnig fjallað um upptöku svonefnds „eldisgjalds“ og áréttað að mikilvægt sé að gjaldtaka á sjávarafurðum úr sjóeldi sé bæði fyrirsjáanleg og byggð á traustum grunni og hvetur þingið til þess að ákvæðum um gjaldtöku á eldisfiski verði breytt í aflagjald.

Þá bendir Hafnasambandið á að hafnir landsins séu mikilvægur hluti í innviðaþjónustu á landsvísu, hvort heldur sem er varðandi vöruflutninga eða samgöngur milli landa eða innanlands. Hafnirnar eru auk þess mikilvægur öyggisventill hvað varðar aðföng til og frá landinu. Hafnasambandið gerir alvarlega athugasemd við þá tillögu við breytingu á tollalögum að tollayfirvöldum verði veittur aðgangur að rafrænni vöktun á hafnasvæðum. Með slíku ákvæði er verið að færa stjórnun á myndeftirlitskerfum á höfnum í hendur tollyfirvalda en rekstur og kostnaður vegna tæknibúnaðar og vinnslu verði á hendi hafnasjóða.

Loks bendir Hafnasambandið á í ályktun sinni að hafnirnar standi frammi fyrir stórverkefni við uppsetningu á búnaði til orkuskipta fyrir smærri og stærri skip. Tryggja verður orku í nægjanlegu magni til allra helstu hafnarsvæða, sem og stuðning frá stjórnvöldum til uppbyggingar orkumannvirkja, landtenginga og hleðslustöðva þannig að íslenskar hafnir geti verið í fararbroddi í öllum þáttum umhverfismála.

Stjórn Hafnasambands Íslands 2024-2026

Aðalmenn í stjórn

  • Lúðvík Geirsson, Hafnarfjarðarhöfn, formaður
  • Gunnar Tryggvason, Faxaflóahafnir
  • Pétur Ólafsson Hafnasamlag Norðurlands
  • Jóna Árný Þórðardóttir, Fjarðabyggðarhafnir
  • Friðbjörg Matthíasdóttir, Hafnir Vesturbyggðar
  • Björn Arnaldsson, Hafnir Snæfellsbæjar
  • Alexandra Jóhannesdóttir, Skagastrandarhöfn

Varastjórn:

  • Elliði Vignisson, Þorlákshöfn
  • Dóra Björk Gunnarsdóttir, Vestmannaeyjahöfn
  • Hanna Björg Konráðsdóttir, Reykjaneshöfn