Á vef Siglingastofnunar kemur fram að eitt af verkefnum stofnunarinnar er að hafa eftirlit með því að við hönnun og byggingu hafnarmannvirkja sé fylgt lágmarkskröfum um slysavarnir í höfnum. Með því er m.a. átt við öryggisbúnað til að koma í veg fyrir slys og nota má til að bjarga þeim sem verða fyrir óhöppum við hafnir. Meðal þess eru stigar, bjarghringir, björgunarlykkjur, björgunarnet, krókstjakar, símar eða bjölluskápar og lýsing á hafnarsvæðum. Í úttektum eru einnig skoðuð innsiglingamerki og ljós ef þau eru staðsett á bryggjum eða nálægt þeim. Mikilvægt öryggisatriði er að þau séu máluð réttum lit og með ljós í lagi. Reglulegt viðhald á þessum hlutum er áríðandi og nauðsynlegt.
Reglur um öryggisbúnað hafna gera kröfur um lágmarksbúnað en ekkert mælir á mót því að hafnastjórnir bæti við öryggisbúnaði. Til dæmis hafa nokkrar hafnir komið fyrir björgunarvestum á bryggjum í sérstökum kössum sem börn og unglingar geta notað við bryggjudorg eða aðra iðju sem krakkar stunda. Mikilvægt er að allir sem vinna við hafnir séu vakandi yfir öryggismálum hafna, enda þurfa þau stöðugt að vera í endurskoðun.
Skoðunarmenn Siglingastofnunar sinna reglulegu eftirliti með því að lágmarksöryggis sé gætt í höfnum landsins, í góðri samvinnu við starfsmenn hafna.
Tengill á vefsíðu Siglingastofnunar þar sem fjallað er um öryggi sjófarenda og öryggi í höfnum.