Sverrir nú starfsmaður á öxl

Mynd: grindavik.is

Rafmagnslaust var í Grindavík aðfaranótt nýársdags og aðstoða þurfti nokkur skip í höfninni þess vegna. Menn voru kallaðir út en ekki Sverrir Vilbergsson. „Þá þagði minn sími,“ segir hann, en um áramót lét Sverrir af störfum sem hafnarstjóri í Grindavík vegna aldurs. Sverrir byrjaði á sjó 1958, þá 16 ára gamall, og hefur tengst höfninni síðan. Hann var lengi stýrimaður og skipstjóri á vertíðarbátum en hóf störf hjá höfninni 1987 og hefur verið hafnarstjóri frá árinu 2000.

Miklar breytingar
„Breytingarnar eru svakalegar á öllum sviðum,“ segir Sverrir um vinnuumhverfi sitt í rúmlega hálfa öld. „Hafnarskilyrðin hafa til dæmis gjörbreyst á þessum tíma.“ Samfara dýpkun hefur höfnin verið gerð aðgengilegri fyrir stærri skip, innsiglingunni var breytt 1999 og settir upp garðar í kjölfarið. „Núna held ég að Grindavíkurhöfn sé einhver albesta höfn á landinu til að liggja í – hér er aldrei hreyfing á bát,“ segir hann.

Sverrir Vilbergsson fv. hafnarstjóri í Grindavík ásamt arftaka sínum Sigurði Kristmundssyni.

Grindavík er mikill útgerðarbær og höfnin hefur gjarnan iðað af lífi. Sverrir rifjar upp að á tímabili hafi 50 til 60 bátar verið gerðir út frá Grindavík og fram undir 1980 hafi höfnin afgreitt upp í 100 báta á dag. Nú séu oftast 20 til 25 landanir á dag og fari mest upp í um 40 landanir að dagróðrarbátunum meðtöldum. „Með tilkomu kvótakerfisins 1984 gjörbreyttist mynstrið,“ segir hann. Skipum hafi ekki aðeins fækkað heldur séu flest nú í nokkurra daga útilegu og frystitogararnir allt upp í mánuð á sjó.

Aðstæður hafa ekki aðeins breyst við höfnina heldur er allur aðbúnaður á skipunum allt annar og betri. Veiðarfærin hafa þróast og Sverrir segir ólíku saman að jafna, hvort sem litið sé á netaveiðar eða línuveiðar. Með breyttu sóknarmynstri hafi löndunin líka breyst. Áður hafi fiskinum verið sturtað á vörubílspall og honum ekið í burtu en nú sé allur fiskur fluttur ísaður í körum og afgreiðslan á hverjum báti taki allt að sex stundir. Betri meðferð á aflanum taki meiri tíma.

Sigurður Arnar Kristmundsson er tekinn við sem hafnarstjóri en Sverrir verður honum til halds og trausts næstu daga og jafnvel út mánuðinn. „Ég er formlega hættur og er nú bara starfsmaður á öxl.“

Á kylfur og tilbúinn í golfið
Sverrir Vilbergsson segist ekki hafa leitt hugann að því hvað taki við þegar hann sest í helgan stein síðar í þessum mánuði.

„Ég hef ekki hugsað um það og veit ekki hvort hugsunin hellist yfir mig, þegar ég hætti endanlega,“ segir Sverrir. „Ég hef aldrei verið rosalega skipulagður þannig að eitt taki við af öðru, en mér sýnist að önnur gamalmenni séu flest þannig að eftir að þau átta sig á því að þau séu hætt að vinna sé svo mikið að gera hjá þeim að þau megi ekki vera að neinu. Ætli ég verði ekki eins. Það var svolítið skrýtið að ég þurfti ekki að pæla í rafmagnsleysinu um helgina, en ég get gengið sáttur frá borði, hef engar áhyggjur og á golfkylfur og get því barið í bolta ef vill.“

Viðtal: Morgunblaðið (03.01.2012).