Ekkert banaslys á sjó á árinu 2011

Yfirlit Rannsóknarnefndar sjóslysa um óhöpp á árinu 2011

Rannsóknarnefnd sjóslysa (RNS) hefur birt yfirlit ársins 2011 á vef sínum, http://rns.is. Þar kemur m.a. fram að engin banaslys hafi orðið á sjó á árinu 2011 en það gerðist einnig á árinu 2008. Banaslys varð síðast á sjó þann 17. apríl 2010 og eru því liðin tæp tvö ár frá því slysi þegar skýrsla RNS var tekin saman.

Eitt banaslys varð þó á íslensku hafsvæði á árinu en það varð á grænlensku nótaveiðiskipu þegar skipverji fór fyrir borð og drukknaði. Þetta mál er rannsakað og skráð hjá dönsku sjóslysanefndinni en skráð sem annað atvik hjá RNS.

Skip

Fjöldi skipa sem sökkva fækkar verulega á milli ára en atvik þegar skip stranda eða taka niðri fjölgar talsvert.  Árekstrum fjölgar en atvik um eld um borð fækkar og leki að skipum fjölgar milli ára.

Fækkun var á atvikum þegar bátur eða skip voru dregin til hafnar vélarvana af ýmsum ástæðum.  RNS hefur fylgst náið með þessum atvikum og mun gera það áfram vegna þess lærdóms sem sannarlega má af þeim draga.  Enn kemur það mönnum á óvart að RNS skuli hafa samband þegar allt hafði í raun farið vel í þessum atvikum en hefur undantekningalaust mætt skilningi þegar ljóst er að aðstæður hefðu getað verið verri.  RNS hvetur því alla sjófarendur að tilkynna þau atvik sem gætu komið öðrum að gagni en verði ekki hulin eins og gerist þegar sjóför farast án skýringa.

Undir liðnum Annað eru skráð þau mál sem ekki falla undir flokkun í þessari töflu og má þar nefna atvik þegar skip fengu í skrúfuna, bilanir í búnaði, skemmdir vegna veðurs, farmskemmdir o.fl.

Yfirlit RNS og upplýsingar um einstök mál má lesa á vefsíðu nefndarinnar.