Líkt og greint var frá í upphafi mánaðarins er þess vænst að yfirstandandi loðnuvertíð geti fært þjóðarbúinu allt að 30 milljarða króna í tekjur og þar er hlutur Vopnafjarðar verulegur. Á heimasíðu Fiskifrétta, www.fiskifrettir.is, er ýmsan fróðleik að finna. Frá því er greint að Fiskistofa hafi tekið saman upplýsingar um landað magn af uppsjávarfiski eftir höfnum og landsvæðum frá 2007 til 2011 – og meðal hinna 3ja stærstu er Vopnafjörð að finna.
Á síðasta ári var mestum uppsjávarafla landað í Neskaupsstað eða 171.507 tonnum. Næstmestum afla var landað í Vestmannaeyjum eða 153.049 tonnum og því næst á Vopnafirði, 75.987 tonnum. Eru þessar tölur enn ein staðfesting á að Vopnafjörður og íbúar þess eru svo að leggja þjóðarbúinu til þarfar tekjur en ef heimildarmaður fer ekki með rangt mál má halda því fram að hver íbúi leggi til þjóðarbúsins um 10 milljónir króna þar eð vinnsla HB Granda hf. skapar verðmæti allt að 7 milljörðum árlega.
Eins og gefur að skilja eru miklar sveiflur í lönduðu magni milli ára. Nefna má að á árinu 2009 var aðeins landað einu tonni af uppsjávarfisk í Reykjavík en í fyrra var landað þar rúmum 25 þúsund tonnum. Á síðustu öld var Siglufjörður löngum mikil síldarhöfn eins og frægt er en þar var nánast engum uppsjávarafla landað nokkur undanfarin ár þar til á síðasta ári þegar tæplega 700 tonnum af síld og makríl var landað þar. Alls var landað meira en þúsund tonnum á 16 höfnum á síðasta ári en á 15 höfnum 2010.
Í sjávarútvegi eins og í öðrum þáttum mannlegs lífs á sér stað stöðug þróun. Nú er svo komið að menn telja sig geta reiknað afla til margra ára. Þannig hefur Norska hafrannsóknastofnunin útbúið reiknilíkan þar sem útgerðarmenn og aðrir sem hlut eiga að máli geta reiknað út hugsanlegan afla í norsk-íslenskri síld fimm ár fram í tímann, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Það tekur um fjögur til fimm ár fyrir hvern nýjan árgang að koma fram í hrygningarstofninum. Á grundvelli vitneskju um nýliðuna og ástand hrygningarstofns á hverjum tíma geta vísindmenn lagt fram spá fjögur til fimm ár fram í tímann. Reiknilíkanið verður aðgengilegt á netinu.
Norskir fiskifræðingarnir leggja þó áhersla á að reiknilíkanið taki ekki tillit til margra óvissuþátta sem ráða endanlega mati ICES á síldarstofninum. Því þurfi ekki að kom á óvart að niðurstöður þess séu ekki í fullu samræmi við ráðgjöf ICES á hverjum tíma.
Af www.vopnafjordur.is