Flest sveitarfélög á Vestfjörðum hafa misst mikinn kvóta

Samanlögð úthlutun fiskveiðikvóta á Vestfjörðum minnkaði um 5,2% á árunum 1991 til 2011. Árið 1991 var fiskveiðikvótinn á Vestfjörðum 14,8% af heildarkvótanum en 9,6% á fiskveiðiárinu 2010/2011. Þetta kemur fyrir í tölum sem teknar voru saman við gerð frumvarps til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa flest öll misst stóran hlut af kvóta á tímabilinu. Hlutfallslega missti Reykhólahreppur mest, eða 100%. Hins vegar var lítið veitt í Reykhólahreppi á fiskveiðiárinu 1991 eða 306,6 þorskígildistonn en þau voru 1,6 fiskveiðiárið 2010/2011. Markmiðið með lögunum er að breyta skipulagi fiskveiðistjórnunar og sölu sjávarafla og tryggja með því ríka aðkomu sveitarfélaga að úthlutunum aflaheimilda og eflingu byggðar.

Með lögunum er m.a. stefnt að því að hvert sveitarfélag á Íslandi fái forræði yfir veiðum á samsvarandi hluta nytjastofna á Íslandsmiðum og nemur samanlagðri aflahlutdeild þeirra fiskiskipa sem skráð voru í viðkomandi sveitarfélagi fyrir gildistöku laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990.

Ísafjarðarbær missti 22,56% af kvóta á tímabilinu, fór úr 6,71% af heildarkvóta 1991 í 5,19% fiskveiðiárið 2010/2011, en í Ísafjarðarbæ voru veidd 29.097 þorskígildistonn árið 1991 samanborið við 15.670 árið 2010/2011. Á Flateyri var 0,71% af heildarkvótanum árið 1991 en hlutfallið var komið niður í 0,33% árið 2010/2011. Á Suðureyri fór hlutfallið úr 0,55% í 0,46% og á Þingeyri úr 1,29% í 0,67%. Á Ísafirði fór hlutfallið úr 4,16% í 2,5% en í Hnífsdal jókst hlutfallið, fór úr 0% í 1,25%.

Vesturbyggð hefur misst 41,25% af kvóta á tímabilinu og fór úr 3,08% af heildarkvóta árið 1991 í 1,81% árið 2010/2011. Taka skal fram að í útreikningunum er Tálknafjörður talinn með Vesturbyggð. Þar fór hlutfall af heildarkvóta úr 0,7% árið 1991 í 0,56% árið 2010/2011. Þá hefur Súðavíkurhreppur misst 98,56% af kvóta á tímabilinu, Strandabyggð 83,79% og Kaldrananeshreppur 73,57%. Hins vegar jókst kvótinn í Bolungarvík um 1,5% og í Árneshreppi um 67,4%. Í Bolungarvíkur var hlutfall af heildarkvóta 2,22 árið 1991 og fór í 2,26% árið 2010/2011. Í Árneshreppi fór hlutfallið úr 0,01% í 0,02%.

Af www.bb.is