Í frétt frá Hagstofunni kemur fram að aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa nam 143 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2011 samanborið við tæpa 125 milljarða á sama tímabili 2010. Aflaverðmætið hefur því aukist um 18,3 milljarða króna eða 14,7% milli ára.
Mestur hluti aflans liggur í aflaverðmæti botnfisks, 87,4 milljarðar króna. Verðmæti þorskaflans nam 42,3 milljörðum króna og er það um 30% af heildarverðmætinu. Verðmætið jókst um 2,3% frá sama tíma ári fyrr.
Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 60,5 milljörðum króna og jókst um 17,7% frá árinu 2010. Aflaverðmæti sjófrystingar var 57,4 milljarðar sem er 25,8% aukning frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam um 18 milljörðum króna, sem er 1,1% aukning frá janúar-nóvember 2010.