Á vefsíðu Hagstofunnar í dag, 24. febrúar, kemur fram að alls voru 1.655 fiskiskip á skrá hjá Siglingastofnun í lok árs 2011 og hafði þeim fjölgað um 30 frá árinu áður. Fjöldi vélskipa var 764 og samanlögð stærð þeirra 82.777 brúttótonn. Vélskipum fjölgaði um þrjú á milli ára en flotinn minnkaði um 680 brúttótonn. Togarar voru alls 58 og fjölgaði um einn frá árinu á undan. Heildarstærð togaraflotans var 73.137 brúttótonn og hafði stækkað um 8.050 brúttótonn frá árinu 2010. Opnir fiskibátar voru 833 og 3.988 brúttótonn að stærð. Opnum fiskibátum fjölgaði um 26 milli ára og heildarstærð þeirra jókst um 131 brúttótonn.
Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2011, 375 skip, um 23% fiskiskipastólsins. Næst flest, alls 308, voru með heimahöfn skráða á Vesturlandi, tæp 19%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, alls 77, en það samsvarar um 5% af heildarfjölda fiskiskipa. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, alls 211, og á Vesturlandi voru þeir 168. Fæstir opnir bátar voru með heimahöfn á Suðurlandi, alls 18. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 158 talsins, en fæst á Norðurlandi vestra, 49 skip. Flestir togarar voru með heimahöfn skráða á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi eystra, 11 í hvorum landshluta. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls fjórir.