Faxaflóahafnir voru með heildartekjur á árinu 2011 upp á 2,4 milljarða króna. Hagnaður ársins var 248 milljónir kr. Gísli Gíslason hafnarstjóri segir að miðað við fyrstu fjóra mánuðina stefni í góðan rekstur á þessu ári eftir mikla niðursveiflu frá árinu 2008.
Faxaflóahafnir eru í eigu Reykjavíkur, sem á 75% í fyrirtækinu, Akraness, Borgarness, Skorradalshrepps og Hvalfjarðarsveitar sem saman eiga 25%.
Við erum nokkuð sátt. Í gegnum þessar æfingar allar undanfarin ár höfum við haldið okkur réttu megin við strikið og skilað jákvæðri afkomu. Við höfum haldið okkur innan ramma fjárhagsáætlunar,
segir Gísli.
Það varð verulegur samdráttur í innflutningi sérstaklega og skipakomum. Skipum fækkaði og vörumagn minnkaði einnig. En það dróst líka saman lóðaeftirspurn sem hefur skilað Faxaflóahöfnum umtalsverðum tekjum í gegnum tíðina.
Gísli segir að fyrirtækið hafi á móti lækkað kostnað sinn og einnig hafa aflagjöld af fiskveiðiflotanum hækkað og aukið tekjur Faxaflóahafna.
Við erum komnir í svipað tekjuform og var hjá okkur fyrir fjórum árum. Síðastliðin þrjú ár hafa verið hvert öðru lík en það eru jákvæð merki á lofti núna. En það er of snemmt að tala um að kreppunni sé lokið.
Gísli segir fjölgun á komu skemmtiferðaskipa skipta máli en þó ekki meginmáli í afkomu Faxaflóahafna. Langstærsti tekjuhlutinn er af vöruinnflutningi og landþróun. Hann segir hins vegar skemmtiferðaskipin mikilvæg að því leyti að koma farþega til landsins skipti miklu máli fyrir afkomu annarra fyrirtækja. Efnahagsáhrifin af komu skemmtiferðaskipanna séu mjög mikil.