Ályktun og áskoranir á hafnasambandsþingi 2020

Áskorun til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingu á hafnalögum.

Hafnasambandsþing, haldið 27. nóvember 2020, samþykkir að beina þeirri áskorun til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að við fyrirliggjandi frumvarp til breytinga á hafnalögum og tengdum lögum verði tekið fullt tillit til þeirra sjónarmiða sem Hafnasamband Íslands hefur komið á framfæri við ráðuneytið. Í ábendingum hafnasambandsins er m.a. bent á eftirfarandi atriði:

a) Skilgreiningu á valdheimildum hafna á hafnarsvæðum á sjó.
b) Ákvæði um skyldu til notkunar á hreinni orku í höfnum og umhverfisafslætti í tengslum við ákvæði laga og reglna um eldsneyti skipa og orkuskipti á sjó.
c) Ákvæði um hafnsöguþjónustu, m.a. hver hafi heimild til að veita þjónustuna og skilyrði fyrir að bjóða þá þjónustu m.a. m.t.t. til trygginga, þjálfunar og réttinda.
d) Ákvæði um mönnun og lögskráningu áhafna á dráttar- og lóðsbáta, sem taka ekki í dag mið af eðli starfseminnar.
e) Ákvæði um skilgreiningu á því hvaða skilyrði skuli að vera fyrir hendi til þess að hafnir falli undir og verði hluti af samevrópska flutninganetinu, hvað slíkt hefur í för með sér og hvernig tilkynnt sé um slíka stöðu.
f) Nauðsyn þess að skilgreina betur ákvæði hafnalaga um álagningu farþegagjalds.
g) Ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og viðaukum þeirra laga í því skyni að einfalda regluverk varðandi nauðsynlega innviði hafna svo sem dýpkanir, sem tryggi örugga siglingu skipa og viðlegu þeirra.
h) Nauðsyn þess að styrkja ákvæði hafnalaga varðandi lögveð til tryggingar hafnargjöldum. Skipagjöld og lóðarleiga á skipulögðu hafnarsvæði njóta nú lögveðsréttar, en útfæra þarf nánar lögveðsrétt skipagjalda þar sem ýmis fleiri gjöld fylgja þjónustu hafna við skip og báta.

Hafnasambandsþing ítrekar fyrri ályktanir um mikilvægi hafna í samgöngukerfi landsins og telur einsýnt að það mikilvægi endurspeglist í þeirri löggjöf sem gildir varðandi hafnir.

Áskorun til stjórnvalda um orkuskipti í höfnum

Hafnasambandsþing, haldið 27. nóvember 2020, minnir á að á liðnum áratugum hafa hafnir unnið að landtengingu skipa. Nú blasa við nýjar áskoranir um öflugri landtengingar vegna stærri skipa, sem eru kostnaðarsamar. Hafnasambandið lýsir áfram yfir vilja til þess að nýta endurnýjanlega orku í enn frekara mæli til að landtengja skip, en minnir á að árangur í þeim efnum byggi á samstarfi hafna, stjórnvalda, veitufyrirtækja og fleiri aðila. Því skorar hafnasambandsþing á stjórnvöld að tryggja samstarf og þátttöku allar þeirra aðila sem að þessu máli koma þannig að á næstu árum verið stigin stór skref í því skyni að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum.

Ályktun um vigtarmál

Hafnasambandsþing, haldið 27. nóvember 2020, samþykkir eftirfarandi ályktun varðandi fyrirhugaða breytingu á reglugerð um vigtun sjávarafla: Hafnasamband Íslands hefur sent umsögn sína um fyrirhugaðar breytingar á reglugerð um vigtun sjávarafla. Um áratugaskeið hafa hafnir landsins annast vigtun sjávarafla, en við lögfestingu fiskveiðistjórnunarkerfisins hefur ríkisvaldið nýtt sér endurgjaldslaust aðstöðu og mannafla hafnanna til eftirlits með lönduðum afla. Á árinu 2018 gerðu Hafnasambandið og Fiskistofa með sér samstarfsyfirlýsingu um hvernig mætti best standa að vigtun sjávarafla. Með fyrirhuguðum breytingum á reglugerðinni er gengið verulega á hlut hafnanna með stórauknum kostnaði og ábyrgð og í raun gegn þeirri samstarfsyfirlýsingu sem undirrituð var milli aðila.

Hafnasambands Íslands mótmælir harðlega þeim tillögum sem fyrir liggja um breytingu á reglugerð um vigtun sjávarafla og hvetur sjávarútvegsráðherra að endurskoða rækilega fyrirliggjandi drög í samvinnu við Hafnasamband Íslands.