Fimmtudaginn 4. maí 2017 stendur Hafnasamband Íslands fyrir námskeiðinu Verið viðbúin! Námskeiðið fer fram í Borgartúni 30, 6. hæð, og er námskeiðsgjald 12.000 krónur.
Fyrri hluti – 10.00-12.00
Á fyrri hluta námskeiðsins verður fjallað um fjölmiðla, eðli þeirra og tilgang, samskipti við þá og mikilvægi þess að vinna með þeim en ekki á móti. Umhverfi fjölmiðlunar verður skoðað sérstaklega með tiliti til þeirrar breytinga sem átt hafa sér stað með innreið netfréttamiðla og tenginga þeirra við samfélagsmiðla.
Þá er farið yfir þær áskoranir sem fylgja stóraukinni notkun samfélagsmiðla og nauðsyn þess að fyrirtæki marki sér skýra stefnu varðandi þá.
Seinni hluti 13.00-15.00
Í síðari hluta námskeiðsins verður farið yfir mikilvægi þess að bregðast rétt við áföllum strax í upphafi. Sérstök áhersla verður lögð á framkomu í fjölmiðlum og nauðsyn undirbúnings auk annara þátta. Farið verður yfir nýleg mál sem komið hafa upp í höfnum landsins og ratað hafa í fjölmiðla og umfjöllun um þau mál skoðuð og greind.
Að auku munu tveir hafnarstjórar fjalla um reynslu sína af samskiptum við fjölmiðla í málum sem komið hafa upp nýverið.
- Gísli Gíslason Hafnarstjóri Faxaflóahafna mun fjalla um áhuga og umfjöllun fjölmiðla þegar Perlan sókk í Reykjavíkurhöfn.
- Lúðvík Geirsson hafnarstjóri Hafnafjarðarhafna mun fjalla um Polar Nanuq og dagana þegar skipið lá við landfestar við Hafnarfjarðahöfn og umsátur myndaðist um Hafnarfjarðarhöfn.
Að endingu munu umræður eiga sér stað.
Fyrirlesarar eru ráðgjafar Athygli: Árni Þórður Jónsson, Kolbeinn Marteinsson og Bryndís Nielsen.
Á meðal atriða námskeiðsins eru:
- Hverju sýna fjölmiðlar áhuga?
- Mikilvægi fyrstu viðbragða
- Einn talsmaður – lykilskilaboð
- Hvernig á að koma fram í fjölmiðlum
- Að „halda haus“ við áföll
- Samfélagsmiðlastefna