Lög Hafnasambands Íslands

Lög Hafnasambands Íslands

1. gr.

Nafn sambandsins er Hafnasamband Íslands. Lögheimili þess og aðsetur er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

2. gr.

Íslenskar hafnir sem reknar eru samkvæmt hafnalögum geta gerst aðilar að Hafnasambandi Íslands.

3. gr.

Hafnasamband Íslands er hagsmunasamtök íslenskra hafna og er tilgangur þess:

  • að vera sameiginlegur málsvari hafna gagnvart ríkisvaldinu og öðrum í málum er varða hafnirnar
  • að efla samstarf hafna og vinna að því að styrkja hlutverk þeirra
  • að miðla upplýsingum og reynslu um alla þætti í starfi hafna
  • að vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum, s.s. vinnu við gerð laga og reglugerða sem varða hafnir, stuðla að fræðslu og kynningu á málum sem varða rekstur og uppbyggingu hafna.

4. gr.

Aðildarhafnir velja fulltrúa á hafnasambandsþing.   Fulltrúafjöldi miðast við allar tekjur skv. ársreikningi  hafnarsjóðs næstliðins árs að undanskildum óreglulegum tekjum.

I.  tekjuflokkur  1 fulltrúi
II.  tekjuflokkur  1 fulltrúi
III.  tekjuflokkur  2 fulltrúar
IV.  tekjuflokkur  2 fulltrúar
V.  tekjuflokkur  4 fulltrúar
VI.  tekjuflokkur  5 fulltrúar
VII. tekjuflokkur 7 fulltrúar
VIII.  tekjuflokkur  10 fulltrúar

Skilyrði atkvæðisréttar er að viðkomandi höfn sé skuldlaus við hafnasambandið.

Varafulltrúar á hafnasambandsþing skulu valdir jafnmargir. Heimilt er aðildarhöfn að senda fleiri fulltrúa en þá sem hafa atkvæðisrétt en stjórn getur ákveðið að aukafulltrúar greiði þátttökugjald.

5. gr.

Hafnasambandsþing hefur æðsta vald í málefnum Hafnasambands Íslands.  Hafnasambandsþing skal haldið í september- eða októbermánuði annað hvert ár.
Á hafnasambandsþingi starfa starfsnefndir skv. ákvörðun þingsins, þ.á m. kjörnefnd.

Kjörgengir á hafnasambandsþing og í stjórn Hafnasambands Íslands eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og hafnastjórnum auk varamanna þeirra.  Að auki eru kjörgengir starfsmenn hafna og sveitarfélaga.  Láti aðal- eða varamaður í stjórn af starfi á vettvangi sveitarfélaga eða hafna, eða hættir í sveitar- eða hafnarstjórn, þá fellur umboð hans niður. Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og hafnastjórnum, svo og starfsmenn hafna og sveitarfélaga, halda umboði sínu í stjórn  að afloknum sveitarstjórnarkosningum til og með næsta hafnasambandsþingi.

Reikningsár Hafnasambands Íslands skal vera almanaksárið.

Stjórn Hafnasambands Íslands  samþykkir ársreikninga sambandsins eftir að þeir hafa verið kynntir aðildarhöfnum, en þeir eru síðan lagðir fram á næsta hafnasambandsþingi til staðfestingar.  Starfs- og fjárhagsáætlun til næstu tveggja ára skal lögð fram á þingi hafnasambandsins til samþykktar. Stjórn sambandsins getur breytt fjárhagsáætlun milli þinga eftir að breytingartillögurnar hafa verið kynntar aðildarhöfnum.

Atkvæðisrétt á hafnasambandsþingi eiga einungis kjörnir og viðstaddir fulltrúar hafna skv. 4. gr.

Til hafnasambandsþings skal stjórn Hafnasambands Íslands boða með dagskrá, sem öllum aðildarhöfnum skal send eigi síðar en tveimur vikum fyrir þing. Fundarboði skulu fylgja drög að skýrslu stjórnar, ársreikningar hafnasambandsins, tillaga að fjárhagsáætlun og tillögur um lagabreytingar.

Hafnasambandsþing skal ákvarða hverju sinni tekjumörk hvers tekjuflokks skv. 4. grein þessara laga þannig að samanlögð árgjöld nægi til þess að standa straum af kostnaði við rekstur hafnasambandsins.
Stjórn hafnasambandsins skal leggja fram tillögu um árgjöld fyrir hvert þing. Við ákvörðun árgjalda skal taka sanngjarnt tillit til tekna hafna.

Á dagskrá hafnasambandsþings skal m.a. taka fyrir eftirfarandi:
a) skýrslu stjórnar um starfsemi hafnasambandsins undanfarandi ár
b) ársreikninga hafnasambandsins
c) starfs- og fjárhagsáætlun hafnasambandsins ásamt ákvörðun um árgjöld, þóknun stjórnar og fl.
d) lagabreytingar
e) kosningu stjórnar og varastjórnar til tveggja ára
f) kosningu tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara til tveggja ára
g)  mál sem stjórn hafnasambandsins, einstakir fulltrúar, hafnarstjórnir eða sveitarstjórnir óska að tekin verði fyrir.

Heimilt er stjórninni að kveðja fulltrúa saman til aukaþings, ef þörf krefur. Aukaþing skal boða með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Aukaþing getur einungis tekið fyrir mál sem getið er í fundarboði. Lagabreytingar og stjórnarkjör geta þó aðeins farið fram á reglulegu hafnasambandsþingi.

Þau ár sem ekki er haldið hafnasambandsþing skal halda hafnafund. Hafnafundur er ætlaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn og stjórnendur hafna um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður. Hafnafundur er öllum opinn og tekur ekki ákvarðanir í málefnum Hafnasambands Íslands en getur beint ályktunum til stjórnar hafnasambandsins.

6. gr.

Stjórn Hafnasambands Íslands skipa  sjö fulltrúar og þrír til vara í þeirri röð sem þeir eru kjörnir.  Skulu þeir kosnir á hafnasambandsþingi, sbr. 5. gr. e-lið

Komi fram tillögur um fleiri stjórnarmenn en sjö skal kosið milli þeirra og ræður afl atkvæða. Hafnasambandsþingið kýs formann úr röðum stjórnarmanna, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár.  Við kjör stjórnar skal leitast við að fulltrúar í stjórn hafnasambandsins endurspegli sem best fjölbreytni þeirra hafna sem eru aðilar að Hafnasambandi Íslands og jafna stöðu karla og kvenna.

Segi fulltrúi sig úr stjórn Hafnasambands Íslands tekur varafulltrúi sæti hans til næsta hafnasambandsþings.

Stjórn hafnasambandsins ræður málum þess milli þinga.

Stjórnin skal halda a.m.k. fimm stjórnarfundi á ári. Stjórnarformaður boðar stjórnarmenn saman til funda.  Heimilt er stjórninni að halda símafundi eða með notkun fjarfundarbúnaðar og gilda sömu reglur um þá fundi og aðra fundi.   Stjórnin heldur gerðabók og skulu endurrit fundargerða send aðildarhöfnum.

Stjórninni er heimilt að skipa starfsnefndir um einstök mál og ákveða þóknun til nefndarmanna.

Á stjórnarfundum Hafnasambands Íslands gilda almenn fundarsköp.

7. gr.

Lögum þessum má breyta á hafnasambandsþingi. Til lagabreytinga þarf 2/3 hluta atkvæða mættra fulltrúa.

8. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á hafnasambandsþingi á Hótel Höfn í Hornafirði, í október 2006.